Beint á efnisyfirlit síðunnar

2 aldursflokkamet á fyrsta degi ÍM50

05.04.2019

Í dag hófst Íslandsmeistaramótið í 50m laug í Laugardalslaug en um 170 keppendur eru samankomnir til að taka þátt.

í úrslitahluta dagsins voru mörg hörkuspennandi sund og tvö aldursflokkamet féllu. Eva Margrét Falsdóttir úr ÍRB setti telpnamet í 100m bringsundi þegar hún varð þriðja í greininni á tímanum 1:14.93. Karen Mist Arngeirsdóttir úr ÍRB sigraði á tímanum 1:12,16. 

Patrik Viggó Vilbergsson úr Breiðabliki setti piltamet í 400m skriðsundi en hann varð annar á tímanum 4:02,93 en Þröstur Bjarnason sigraði greinina og var einungis sekúndubroti hraðari, 4:02,92.

Þá náði Eygló Ósk Gústafsdóttir úr ÍBR þeim merka áfanga að ná sínum hundraðasta Íslandsmeistaratitli þegar hún sigraði 200m baksund á tímanum 2:17,44.

Jóhanna ElIn Guðmundsdóttir úr SH sigraði 50m skriðsund eftir svakalega keppni við þær Bryndísi Rún Hansen og Steingerði Hauksdóttur. Jóhanna sigraði á 26,36 sek, Bryndís varð önnur á 26,63 og Steingerður þriðja á 26,72.

Dadó Fenrir Jasminuson úr SH vann 50m skriðsund karla á tímanum 23,37sek. Kristinn Þórarinsson úr ÍBR varð annar á 23,55 og Kristófer Sigurðsson úr ÍRB þriðji á 23,89.

Ragna Sigríður Ragnarsdóttir úr Breiðabliki sigraði 400m skriðsund í hörkuspennandi sundi þar sem hún synti á 4:28,01 en Eydís Ósk Kolbeinsdóttir úr ÍRB varð rétt á eftir henni á 4:28,16.

Anton Sveinn McKee úr SH kom fyrstur í mark í 100m bringusundi þegar hann synti á 1:02,48 en lágmarkið á HM50 í greininni er 1:02,05.

Brynjólfur Óli Karlsson úr Breiðabliki sigraði 200m baksund á tímanum 2:09,85 og Katarína Róbertsdóttir úr SH sigraði 100m flugsund á tímanum 1:05,01. Sundið var ótrúlega spennandi en þær Jóhanna Elín og Elín Kata Sigurgeirsdóttir úr Óðni voru rétt á eftir, 1:05,30 og 1:05,39.

Dadó Fenrir náði svo öðrum gullpeningi í safnið þegar hann kom fyrstur í mark í 100m flugsundi karla á tímanum 58,52.

Fyrsta mótshlutanum lauk með 4x100m fjórsundi í blönduðum flokki þar sem sveit SH sigraði á tímanum 4:07,05 þar sem þau Kolbeinn Hrafnkelsson, Anton Sveinn McKee, Katarína Róbertsdóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir skipuðu sveitina.

Í lok úrslitahlutans var 4x200m skriðsund boðsund en þar sigraði sveit Breiðabliks kvennamegin á tímanum 8:45,05 en þær Bryndís Bolladóttir, Kristín Helga Hákonardóttir, Stefanía SIgurþórsdóttir og Ragna Sigríður Ragnarsdóttir skipuðu sveitina.

Karlamegin sigraði sveit Íþróttabandalags Reykjavíkur á tímanum 8:03,99. Sveitina skipuðu þeir Hólmsteinn Skorri Hallgrímsson, Kristján Gylfi Þórisson, Bjartur Þórhallsson og Kristinn Þórarinsson.

Ráslista og úrslit er að finna hér

Til baka