4 aldurflokkamet og HM lágmark á lokadegi ÍM50
Íslandsmeistaramótinu í 50m laug er lokið eftir frábæra helgi.
Úrslit dagsins eru listuð hér að neðan en Eva Margrét Falsdóttir úr ÍRB, Birnir Freyr Hálfdánarson úr SH og Patrik Viggó Vilbergsson úr Breiðabliki settu öll aldursflokkamet nú seinni partinn.
Eva Margrét synti 200m bringusund á tímanum 2:36,69 sem skilaði henni öðru sæti og telpnameti í greininni. Gamla metið átti Rakel Gunnarsdóttir en það var frá árinu 2005, 2:40,49. Tími Evu Margrétar er einnig undir lágmörkum á Evrópumeistaramótið í Kazan og EYOF, Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í sumar. Karen Mist Arngeirsdóttir úr ÍRB sigraði greinina á tímanum 2:35,84 og Sunna Svanlaug Vilhjálmsdóttir úr SH varð þriðja á 2:36,90
Birnir Freyr setti drengjamet í 50m flugsundi þegar hann synti á 27,97 sek og bætti þar með ársgamalt met Fannars Snævars Haukssonar sem var 28,13. Birnir varð sjöundi í greininni en Dadó Fenrir Jasminuson sigraði á 26,10, Aron Örn Stefánsson varð annar á 26,24 og Ólafur Árdal Sigurðsson þriðji á 26,96. Allir synda þeir fyrir Sundfélag Hafnarfjarðar.
Patrik Viggó sigraði 400m fjórsund á tímanum 4:39,37 en það er bæting á 21 árs gömlu meti Arnar Arnarsonar, 4:40,61. Aron Þór Jónsson úr SH varð annar á 4:54,99 og Snær Llorens Sigurðsson úr ÍA varð þriðji á 5:00,39.
Patrik bætti svo eigið met í 800m skriðsundi nú seinni partinn þegar hann synti á 8:29,70 og sigraði greinina örugglega. Hann náði 800m millitíma í 1500m skriðsundi í gær, 8:33,74. Liðsfélagi hans Kristófer Atli Andersen varð annar 9:01,93 og Veigar Hrafn Sigþórsson úr SH varð þriðji á 9:11,18.
Í 400m fjórsundi kvenna sigraði María Fanney Kristjánsdóttir úr SH á tímanum 5:10,65. Stefanía Sigurþórsdóttir úr Breiðabliki varð önnur á 5:16,33 og þriðja varð Gunnhildur Björg Baldursdóttir úr ÍRB, 5:20,21.
Bryndís Rún Hansen úr Óðni sigraði 50m flugsund með tímann 27,48 sek. Næstar urðu Jóhanna Elín Guðmundsdóttir SH á 28,30 og Katarína Róbertsdóttir úr SH á 28,93.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir úr AGFS í Danmörku sigraði 200m skriðsund á tímanum 2:03,62 og önnur varð Kristín Helga Hákonardóttir á tímanum 2:09,51. Bryndhildur Traustadóttir úr ÍA varð þriðja á 2:12,35.
Þröstur Bjarnason úr ÍRB sigraði 200m skriðsund karla þegar hann synti á 1:56,40 en liðsfélagi hans Kristófer Sigurðsson varð annar á 1:58,96. Kristófer Atli Andersen úr Breiðabliki varð þriðji á 2:00,84.
Steingerður Hauksdóttir úr SH sigraði 50m baksund á tímanum 29,96 en rétt á eftir kom Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, einnig úr SH. Hún synti á 30,03. Íris Ósk Hilmarsdóttir úr ÍRB varð þriðja á 31,09.
Kristinn Þórarinsson úr ÍBR sigraði 50m baksund með tímann 25,95 en það er bæting frá því í morgun þegar hann synti undir lágmarki á Heimsmeistaramótið í 50m laug sem fram fer í Gwangju í Suður Kóreu í sumar. Lágmarkið er 26,05. Kolbeinn Hrafnkelsson úr SH varð annar á 26,23 og Brynjólfur Óli Karlsson varð þriðji á 27,58.
Eydís Ósk Kolbeinsdóttir úr ÍRB kom fyrst í mark í 800m skriðsundi kvenna þegar hún synti á 9:13,71 og Bryndís Bolladóttir úr Breiðabliki varð önnur á 9:16,15. Þriðja varð Ragna Sigríður Ragnarsdóttir úr Breiðabliki á tímanum 9:22,42.
Í síðustu greinum mótsins, 4x100m skriðsundi sigraði sveit SH í kvennaflokki. Þær syntu á 4:01,38 en Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Katarína Róbertsdóttir, Steingerður Hauksdóttir og María Fanney Kristjándóttir skipuðu sveitina. Sveit Breiðabliks varð önnur og Sveit Óðins þriðja.
Í karlaflokki sigraði sveit SH einnig en þeir syntu á 3:35,80. Sveitina skipuðu þeir Kolbeinn Hrafnkelsson, Ólafur Árdal Sigurðsson, Anton Sveinn McKee og Dadó Fenrir Jasminuson. Sveit ÍBR varð önnur og Sveit Breiðabliks varð þriðja.
Eftir Íslandsmeistaramótið er hefð fyrir því að veita viðurkenningar fyrir árangur á milli Íslandsmeistaramóta og á mótinu sjálfu. Þá var tækifærið nýtt til að veita einnig aðrar viðurkenningar.
Silfurmerki
Silfurmerki SSÍ skal veita þeim sem hafa unnið framúrskarandi gott starf að málefnum sundhreyfingarinnar.
Stjórn SSÍ hefur samþykkt að veita þeim Sigríði Ragnarsdóttur og Hörpu Finnbogadóttur úr Sundfélagi Akraness silfurmerki SSÍ.
Sundkona ársins 2018
Sundkona ársins 2018 er eins og allir vita Snæfríður Sól Jórunnardóttir.
Hún gat ekki verið viðstödd í Hörpu þegar viðurkenningin var veitt, þannig að við nýttum tækifærið núna og afhentum henni bikarinn frá ÍSÍ.
SIGURÐARBIKARINN
Sigurðarbikarinn er farandgripur og gefinn í minningu Sigurðar Jónssonar Þingeyings.
Gefandi gripsins er fjölskylda Sigurða.
Bikarinn er veittur fyrir besta afrek í bringusundi karla eða kvenna unnið á ÍM50.
Sá sem hlýtur bikarinn árið 2019 er Anton Sveinn Mckee fyrir 200 metra bringusund sem hann synti hér rétt áðan á tímanum 2:16,91 mínútum og fékk fyrir það sund 791 FINA stig
PÉTURSBIKARINN
Pétursbikarinn er farandgripur og gefinn í minningu Péturs Kristjánssonar sundkappa úr Sunddeild Ármanns.
Gefandi gripsins er fjölskylda Péturs.
Pétursbikarinn er veittur árlega í karlaflokki fyrir besta afrek í sundi milli Íslandsmeistaramóta, þ.e. unnið frá lokum ÍM50 2018 til loka ÍM50 2019.
Sá sem hlýtur bikarinn árið 2019 er Anton Sveinn Mckee fyrir 100 metra bringusund á EM50 í Glasgow 2018. Þar synti hann á nýju Íslandsmeti á tímanum 1:00,45 mínútum og hlaut fyrir það 844 FINA stig.
KOLBRÚNARBIKARINN
Kolbrúnarbikarinn er farandgripur og gefinn í minningu Kolbrúnar Ólafsdóttur sundkonu úr Sunddeild Ármanns.
Gefandi gripsins er fjölskylda og vinir Kolbrúnar.
Kolbrúnarbikarinn er veittur árlega í kvennaflokki fyrir besta afrek í sundi milli Íslandsmeistaramóta, þ.e. unnið frá lokum ÍM50 2018 til loka ÍM50 2019.
Sú sem hlýtur bikarinn árið 2019 er Snæfríður Sól Jórunnardóttir fyrir 200 metra skriðsund sem hún synti á Danska Meistramótinu í júlí 2018. Hún synti greinina á 2:01,81 mínútum, setti nýtt Íslandsmet og fékk fyrir það 797 FINA stig.
ÁSGEIRSBIKARINN
Ásgeirsbikarinn er farandgripur og gefinn í minningu Ásgeirs Ásgeirssonar fyrrverandi forseta Íslands.
Gefandi gripsins er forseti Íslands.
Ásgeirsbikarinn er veittur árlega fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug.
Í ár eru það tveir einstaklingar sem hljóta bikarinn saman þar sem þeir fengu jafnmörg FINA stig fyrir sundin sín eða 791. Þetta eru þeir Anton Sveinn Mckee úr Sundfélagi Hafnarfjarðar sem synti 200 metra bringusund á tímanum 2:16,91 mínútum og Kristinn Þórarinsson úr Fjölni sem synti 50 metra baksund í dag á tímanum 25,95 sekúndur.
Það var forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson sem afhenti bikarinn.
Við þökkum keppendum, þjálfurum, aðstandendum og öllum þeim sjálfboðaliðum sem létu sjá sig í lauginni um helgina kærlega fyrir samveruna og óskum ykkur til hamingju með góðan árangur.
Heildarúrslit mótsins er að finna hér: live.swimrankings.net/24285 en hér er tengill á úrslitin í PDF formi og fyrir Splash (.lxf)