Anton með Íslandsmet og persónulegar bætingar
Það var góður morgun hér í sundhöllinni í Glasgow. Jóhanna Elín Guðmundsdóttir hóf keppni Íslendinga í 50 metra flugsundi sem hún synti á 27,19 sekúndum, en það er 41/100 úr sekúndu bæting á hennar besta tíma. Strax í kjölfarið synti Ingibjörg Kristín Jónsdóttir sama sund á 27,23 sekúndum sem er rétt við tímann sem hún synti greinina á ÍM25 í nóvember sem var 26,95 og er hennar besti tími í greininni.
Anton Sveinn Mckee synti 200 metra bringusund og setti Íslandsmet á tímanum 2:03,67. Gamla metið hans var 2:04,37 frá því á HM25 í fyrra. Hann varð annar í sínum riðli og fjórði inn í úrslitin sem eru í kvöld.
Jóhanna Elín synti öðru sinni, nú 100 metra skriðsund og bætti tímann sinn einnig í þeirri grein þegar hún synti á 56,03 sekúndum sem er líka 41/100 úr sekúndu betri tími en hún átti. Hún var að vonum ánægð með sig að loknum þessum tveimur greinum sínum og skokkaði glaðbeitt til búningsklefa til að undirbúa sig fyrir boðsundið á eftir.
Þá var komið að Snæfríði Sól Jórunnardóttur í 100 metra skriðsundi. Hún bætti einnig sinn besta tíma, synti á 55,25 sekúndum en átti fyrir 55,57 síðan í október. Hún lét vel af sér eftir sundið og á sína bestu grein 200 metra skriðsund eftir síðar á mótinu.
Kristinn Þórarinsson endaði einstaklingssundin hér í þessum hluta með 100 metra baksundi. Hann synti á 53,99 sem er rétt við tímann sem hann setti á ÍM25. Kristinn var sáttur eftir sundið, sagði þetta lofa góðu með framhaldið.
Í lokin synti íslenska sveitin 4x50 metra fjórsund – kynblandað boðsund. Sveitina skipuðu Kolbeinn Hrafnkelsson sem synti baksundið, Kristinn Þórarinsson bringusundið, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir flugsundið og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir sem synti skriðsundið. Tími sveitarinnar var 1:44,51. Frábær skemmtun 😊
Landsmetið í greininni er frá HM25 2016 í Windsor Kanada, 1:43,84. Sveitina skipuðu þá Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Bryndís Rún Hansen og Aron Örn Stefánsson.