Tilmæli frá sóttvarnarlækni varðandi íþróttastarfsemi
Á hádegi í dag, 31. júlí, tók gildi ný auglýsing heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og er gildistími hennar til 13. ágúst næstkomandi.Markmið breytinganna sem nú taka gildi er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins, sem því miður er nú aftur í vexti hér á landi.
Breytingarnar fela meðal annars í sér að fjöldasamkomur, þar sem fleiri en 100 einstaklingar koma saman, eru óheimilar á gildistíma auglýsingarinnar. Gilda reglurnar jafnt um opinber rými sem og einkarými og eru íþróttaviðburðir þar með taldir. Ákvæðið um fjöldatakmörkun (3. grein) tekur þó ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.
Skylt er að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi.
Ákvæði um nálægðartakmörkun (4. grein) tekur þó ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.
Í auglýsingunni kemur einnig fram að í starfsemi þar sem notaður er sameiginlegur búnaður, s.s. í íþróttastarfi, starfsemi líkamsræktarstöðva, spilasala og spilakassa skal búnaður sótthreinsaður milli notenda.
ÍSÍ óskaði eftir nánari útlistun frá sóttvarnarlækni varðandi íþróttastarfsemi fullorðinna og fékk rétt í þessu til baka tilmæli um eftirfarandi:
1. Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.
2. Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
3. Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.
Auglýsing heilbrigðisráðherra og minnisblað sóttvarnarlæknis fylgja þessum pósti sem viðhengi.
ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir.
Verum ábyrg!