Nýjar sóttvarnarreglur um æfingar og keppni
Í gær var birt ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Ný auglýsing gildir frá kl. 00:00 á mánudaginn (7. september) og gildir til kl. 23.59 þann 27. september. Frétt um nýju reglugerðina má finna hér á heimasíðu ÍSÍ.
Helsta breyting frá fyrri auglýsingu er að nú gildir eins metra fjarlægðarregla í stað 2 metra áður. Einnig er fjöldatakmörkun nú hækkuð úr 100 í 200 manns. Áfram er heimild fyrir áhorfendum með takmörkunum en nú er heimilt að uppfylltum skilyrðum að vera með fleiri sóttvarnarrými en áður var leyft. Skilyrðin fyrir áhorfendum eru nú að 1 metra reglan gildi milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum og að ekki séu nema 200 manns að hámarki í hverju rými. Rými þurfa að vera algjörlega aðskilin með a.m.k. 2 metra háu skilrúmi eða 2 metra bili sem ekki er hægt að fara yfir. Hvert skilgreint rými þarf að hafa eigin inngang og útgang og enginn samgangur er heimilaður á milli rýma. Miðasala, salerni, veitingasala og önnur þjónusta verður að vera aðskilin fyrir hvert rými fyrir sig. Nánari upplýsingar um skilyrði sem rými þurfa að uppfylla má finna í leiðbeiningum um reglur sérsambanda sem finna má hér að neðan.
Hvert félag á að senda upplýsingar til SSÍ um hver sinnir hlutverki sóttvarnafulltrúa. Félög eru vinsamlegast beðin um að senda nafn, netfang og símanúmer fulltrúa þeirra á ingibjorgha@iceswim.is hið fyrsta. Er það gert samkvæmt ósk sóttvarnaryfirvalda svo aðgengilegra sé, ef nauðsyn krefur, að koma upplýsingum til skila til þeirra.
SSÍ reglur um æfingar og keppni 8.september 2020.pdf