RIG 2021 – hugleiðingar í lok dags; að lokinni keppni
Það hlýtur að vera óhætt að gleðjast nú þegar fyrsta sundmóti ársins 2021 er lokið; við heldur óvenjulegar aðstæður. Eftir margra vikna undirbúning tókst sundhreyfingunni að halda RIG 2021, sem í fyrstu virtist vera ómögulegt.
Eins og margoft hefur komið fram undanfarnar vikur, hefur starfsfólk SSÍ unnið sleitulaust að því að finna leiðir og lausnir til að halda mótið innan ramma gildandi reglugerðar Heilbrigðisráðuneytisins. Það kemur engum á óvart sem þekkja til. Það getur nefnilega verið flókið að halda sundmót þar sem einungis 50 manns mega vera saman í rými; sundmót gerist nefnilega ekki af sjálfu sér. Það þarf 16 dómara, einn yfirdómara, ræsi, þul, 3 - 4 tæknimenn og þá er einungis eftir rými fyrir 27 keppendur.
Með þrautseigju og útsjónarsemi var fundin lausn. Með því að takmarka fjölda sundgreina á hvern keppenda og skipta mótinu upp í hólf og hluta hér og þar, gat hver og ein sundgrein og keppandi fengið nægan tíma, í upphitun og í keppnina sjálfa.
Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með hversu vel sundhreyfingin tókst á við þetta breytta og óvenjulega fyrirkomulag. Sundfólkið mætti með bros á vör, enda spennt að sjá hvernig staðan var eftir margra mánaða keppnisbann, þau voru algjörlega til fyrirmyndar. Það sama má segja um þjálfara, sem gátu þó lítil sem engin samskipti haft við sundfólkið, fastir í sínu sótthólfi, í stúkunni með um 5 - 10 metra á milli sín, enda allur vari góður.
Að venju gekk vel að manna mótið með vildarvinum sundhreyfingarinnar. Dómarar mættu glaðir til leiks, að sjálfsögðu með allar sóttvarnir á hreinu, spritt, andlitsgrímur og hanska. Ægiringar stóðu „aðgangsstýringingarvaktina“, allir vissu hvert, hvenær og hvar þeir ættu að vera á réttum tíma.
Það var sérstaklega gaman að sjá að árangurinn lét ekki á sér standa. Margir bættu tímann sinn og nokkrir í unglingaflokki náðu lágmörkum á Alþjóðlegu unglingamótin, NÆM og EMU sem vonandi fara fram í sumar.
Ég get seint þakkað Leifa og Emil fyrir góða samvinnu og frábær störf undanfarnar vikur. Þrátt fyrir mikið álag eru þeir búnir að standa sig hreint frábærlega vel. Björn formaður hefur heldur ekki legið á liði sínu og hvatt okkur áfram með ráð og dáð, sem og öll stjórn SSÍ. Síðast en ekki síst vil ég þakka starfsmönnum Laugardalslaugar fyrir góða samvinnu og góða frammistöðu um helgina.
Það er því afar sáttur og stoltur framkvæmdastjóri SSÍ sem leggst á koddann í kvöld. Ég er virkilega stolt af sundhreyfingunni sem hefur enn og aftur sýnt hvað í henni býr.
Takk fyrir frábæra helgi!