Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fyrsta degi á ÍM50 lokið

23.04.2021

Það var góð uppskera á fyrsta degi Íslandsmeistaramótsins í 50m laug sem hófst í morgun í Laugardalslaug. 

Fannar Snævar Hauksson úr ÍRB bætti 23 ára gamalt piltamet í 100m flugsundi en hann sigraði greinina á tímanum 57,12. Gamla metið var 57,63 í eigu Hjartar Más Reynissonar. 

Steingerður Hauksdóttir staðfesti þátttöku sína á EM50 í 50 baksundi en hún þurfti að synda undir 29,89. Hún sigraði greinina á tímanum 29,60. 

Dadó Fenrir Jasminuson staðfesti þátttöku sína á EM50 í 50m skriðsundi þegar hann synti og sigraði greinina á 23,47. Hann þurfti að synda undir 23,50.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH og Snæfríður Sól Jórunnardóttir hjá AGF hafa báðar þegar synt undir EM lágmarki.

Kristín Helga Hákonardóttir og Freyja Birkisdóttir úr Breiðabliki náðu báðar lágmarki á EMU í 400m skriðsundi. Kristín Helga synti á 4:28,40 og Freyja á 4:29,80. Lágmarkið á EMU er 4:30,73.

Símon Elías Statkevicius úr SH náði lágmarki á EMU í 50m skriðsundi en hann synti á tímanum 23,80 og hafnaði í öðru sæti í greininni. Lágmarkið er 23,85.

Eva Margrét Falsdóttir úr ÍRB náði einnig lágmarki á EMU í 200m bringusundi en hún sigraði á tímanum 2:36,36. Lágmarkið er 2:37,65.

Birnir Freyr Hálfdánarson úr SH náði NÆM lágmarki í 100m flugsundi en hann synti á 57,75. Lágmarkið er 58,86. 

Snorri Dagur Einarsson úr SH náði NÆM lágmarki í 100m bringusundi en hann synti á 1:07,32 en lágmarkið er 1:07,69.

Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir úr ÍRB synti undir NÆM lágmarki í 400m skriðsundi en hún endaði þriðja á tímanum 4:40,75. Lágmarkið er 4:43,51.

Veigar Hrafn Sigþórsson úr SH synti einnig undir NÆM lágmarki í 200m baksundi en hann varð annar á tímanum 2:12,91. Lágmarkið er 2:13,75.

Guðmundur Karl Karlsson úr Breiðabliki synti undir NÆM lágmarki í 400m skriðsundi sem hann hafði að vísu náð fyrr á árinu en hann synti nú á 4:16,81 og er lágmarkið 4:18,46. 

Við höldum áfram kl. 9:30 í fyrrmálið en upphitun hefst kl. 8:00. 

Við verðum í beinni útsendingu seinni partinn á morgun á RÚV en útsending hefst kl. 16:00.

Streymt er frá öllum mótshlutum á Youtubesíðu SSÍ

Úrslita- og ráslistasíða mótsins

 

Til baka