Þriðji í EM50
Kristinn Þórarinsson synti í morgun 100 metra baksund hér á EM50 í Búdapest. Hann kom í mark töluvert frá sínu besta, á 58,24 sekúndum og lenti í 56. sæti í greininni.
Þetta er samt tæplega sekúndu betri tími en á ÍM50 2021, þegar hann synti á 59,19, en Kristinn á fyrir besta tímann sinn 56,53 frá því á ÍM50 2019.
Íslandsmetið í greininni er 20 ára gamalt, 54,75 sekúndur. Það á Örn Arnarson en það setti hann á HM50 í Fukuoka 2001 þar sem hann vann silfur í greininni.
Þá synti Snæfríður Sól Jórunnardóttir 200 metra skriðsund og kom í mark á tímanum 2:01,31 mínútum sem sem er 80/100 frá hennar besta. Þessi tími setur hana í 28. sætið í greininni. Hún var heldur hæg á fyrri 100 metrunum en hélt sínu í seinni 100.
Þetta var gott sund hjá Snæfríði Sól en vantaði örlítið upp á hraðann. Fyrir á hún sjálf Íslandsmetið 2:00,50 mínútur en metið setti hún á Danska meistaramótinu sem haldið var í Vejle í mars á þessu ári.
Myndir af Snæfríði og Kristni Hörður J. Oddfríðarson/SSÍ
Mynd af Erni Arnarsyni MBL