Næstsíðasti dagur EM50
Dadó Fenrir Jasmínuson stakk sér í fyrstur Íslendinga í dag hér í Búdapest, þegar hann synti 50 metra skriðsund. Hann kom í mark á tímanum 23,44 sekúndur, endar í 55.sæti og hækkar sig um tvö sæti.. Þessi tími er lakari en besti tíminn sem hann á fyrir, 23,12 sekúndur frá árinu 2018, en hann synti greinina einnig á ÍM50 í síðasta mánuði á 23,33 þannig að hann er á pari við þann tíma núna.
Íslandsmetið í greininni, 22,53, á Árni Már Árnason frá árinu 2012.
Þá var komið að þætti Jóhönnu Elínar Guðmundsdóttur sem stakk sér í 50 metra flugsund. Hún kom í mark á 27,90 sekúndum sem er 23/100 úr sekúndu hægara en hún synti á ÍM50 í síðasta mánuði en það er hennar besti tími til þessa. Jóhanna lenti í 43. sæti í greininni og hækkar einnig um 2 sæti eins og Dadó.
Íslandsmetið í greininni er 26,68, en það á Bryndís Rún Hansen frá því á EM50 í London 2016.
Síðasta sundið í dag var svo 4x100 metra skriðsund blandað boðsund er grein sem við höfum ekki synt sem landslið áður. Sveitina sem keppti hér á EM í Búdapest skipuðu þau Dadó Fenrir Jasmínuson, Kristinn Þórarinsson, Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir í þessari röð. Þau komu í mark 13.af 17 sveitum á tímanum 3:38,67 sem er þar með landsmetstími, en til viðmiðunar er Íslandsmet félaga á sveit SH frá árinu 2014 og það er 3:42,86 mínútur. Fínn árangur í lauginni í dag.
Mynd Dadó: SSI / Emil Örn Harðarson
Mynd Jóhanna: SSí / Simone Costrovillari
Mynd boðsundssveit: SSÍ / Hörður J. Oddfríðarson