Síðasti dagur EM50
Snæfríður Sól Jórunnardóttir átti síðasta sund íslendinganna hér á EM50 í Búdapest. Hún synti 400 metra skriðsund á tímanum 4:23,45 mínútum. Það gefur henni 33. sætið og hún hækkar sig um 5 sæti miðað við skráningar á mótið. Besti tími Snæfríðar til þessa er 4:20,75 síðan í apríl á þessu ári, þannig að árangur dagsins er alveg við hann og vel ásættanlegur.
Íslandsmetið í greininni á Sigrún Brá Sverrisdóttir en hún setti það í Bandaríkjunum í mars 2012.
En þar með er keppni Íslendinga á EM50 í sundi lokið að þessu sinni. Framundan er vinna við að meta stöðuna og halda áfram uppbyggingu. Árangurinn hér er að mörgu leyti ágætur, þó ýmislegt hefði mátt falla betur með okkur. Við förum af einstöku sundmóti reynslunni ríkari, sundmóti þar sem umgjörðin miðaði fyrst og fremst að því að sundfólkið gæti keppt hér með sem minnstum truflunum vegna veirufjandans og náð árangri.
Við þökkum fyrir okkur og þökkum framlínustarfsfólkinu hér í Ungverjalandi fyrir frábæra vinnu við að tryggja sóttvarnir og öryggi hér á mótinu. Í allt komu að framkvæmd mótsins og keppni 4500 manns. Allir voru skimaðir við komu og settir í búbblu. Síðan var skimað 48 tímum síðar og enn aftur 5 sólarhringum eftir það. Að lokum eru svo allir skimaðir innan 48 tíma fyrir brottför. Á mótinu öllu undanfarna 15 daga hafa komið upp 3 smit, 2 starfsmenn greindust jákvæðir hér fyrri vikuna (áður en sundfólkið okkar kom til Búdapest) og þeir voru strax settir í einangrun, sýndu engin einkenni og eru á heimleið núna. Einn sundmaður greindist við komuna til landsins fyrir viku, hann var einnig settur í einangrun og að því er við best vitum er hann einkennalaus og líður eftir atvikum vel. Við vitum ekki hvers lenskur hann er.
Við hlökkum öll til að komast heim á morgun, en þar tekur við 5 daga sóttkví fyrir flest okkar.
Mynd: SSÍ / Simone Castrovillari