Gull hjá Birni og brons hjá Snorra á NÆM
Birnir Freyr með gullverðlaun á NÆM.
Birnir gerði sér lítið fyrir og sigraði í 200m fjórsundi og tyggði sér gullverðlaun þegar hann synti á frábærum tíma 2:09.92, en hans besti tími í greininni var 2:11.20.
Veigar Hrafn synti einnig 200m fjórsund, hann synti á 2:13.61 og bætti sinn besta tíma sem var 2:14.82, Veigar varð sjötti í sundinu.
Snorri Dagur synti 100m bringusund á tímanum 1:07.48, sem er alveg við hans besta tíma. Snorri varð í þriðja sæti í sundinu og kemur því heim með bronsverðlaun af NÆM.
Síðasti hluti NÆM hófst á 400 metra skriðsundi stúlkna þar sem Sunneva og Nadja syntu í sama riðli. Sunneva bætti sig, átti 4:40.75 en synti núna á 4:38,87. Nadja var rétt við sinn besta tíma þegar hún synti á 4:47.31,en hennar besti tími er 4:46.97. Þær urðu í 6. og 10. sæti af 17 keppendum.
Guðmundur Karl stakk sér næstur til sunds og synti hann 400 metra skriðsund á tímanum 4:16.34 sem er bæting á eldri tíma hans, sem var 4:16,81. Gummi Kalli varð í 8. sæti af 16 keppendum.
Þá var komið að Sunnu í 200 metra baksundi, en Sunna bætti sig og synti á 2:26.32, en hún átti 2:28.06.
Því næst var það 100 metra bringusund þar sem Katja synti á 1:18.50, en hún á best 1:16.40. Katja varð í 13. sæti af 17 keppendum.
Stúlkurnar tóku þátt í 4x200m skriðsundi, þær syntu á tímanum 9:15.08 og urðu í 7. sæti.
Þar með hefur sundfólkið okkar lokið keppni á NÆM 2021 og getur svo sannarlega verið stolt af sínum árangri. Það er langt síðan að sundfólkið okkar hefur komið heim með 3 verðlaun af NÆM, en það gerðist síðast árið 2013, þegar sundmenn komu heim með 4 brons.
Það er flott sundfólk og reynslunni ríkara sem er nú á heimleið frá Lítháen. Hópurinn er væntanlegur heim á morgun og það er óhætt að segja að framtíðin sé björt hjá okkur í sundhreyfingunni.