Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ólympíuleikarnir hefjast á morgun- 9 daga sundveisla framundan í Tokyo Aquatic Centre.

23.07.2021

Í dag fer fram opnunarhátíðin, þar sem Ólympíueldurinn verður kveiktur og leikarnir settir. Athöfnin hefst klukkan 11.00 að íslenskum tíma og verður í beinni útsendingu RÚV. Á morgun hefst svo sundkeppnin, þar sem keppt er í undanrásum og byrja þær klukkan 19:00 annað kvöld og úrslit klukkan 10:30 að morgni. Þar sem Japan er 9 tímum á undan Íslandi, þá hefjast undanrásir klukkan 10.00 og úrslit klukkan 01.30 að nóttu að íslenskum tíma.

 

Sundíþróttin er ein af stærstu íþróttagreinum Ólympíuleikana og má búast við mjög harðri keppni. Ísland er með tvo keppendur að þessu sinni á leikunum og tvo þjálfara.

Keppendur eru :

Anton Sveinn Mckee

Snæfríður Sól Jórunnardóttir

Þjálfarar eru :

Eyleifur Jóhannesson, yfirmaður landsliðsmála hjá SSÍ.

Albert Subirats, sem er þjálfari Antons Sveins í Virginíu.

 

Anton Sveinn Mckee frá Sundfélagi Hafnarfjarðar keppir í 200 metra bringusundi, þann 27. júlí.

Anton Sveinn verið búsettur í Bandaríkjunum frá 2012 og stundað þar æfingar. Síðustu árin hefur hann verið í Virginíu undir handleiðslu Sergio Lopez og Albert Subirats. Þetta eru þriðju Ólympíuleikar Antons, en hann keppti fyrst í London 2012 og síðan í Ríó 2016, þar sem hann var aðeins hársbreidd frá því að komast í undanúrslit í 200 metra bringusundi.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir syndir fyrir Aalborg Svömmeklub en hún keppir í 100 metra og 200 metra skriðsundi á þessum leikum sem eru jafnframt hennar fyrstu leikar.  Snæfríður Sól hóf sundferil sinn hjá Sundeild Hamars í Hveragerði, en flutti 9 ára gömul til Danmerkur, þar sem hún æfði og keppti fyrir AGF í Árósum um árabil, en hún fylgdi þjálfara sínum frá Árósum til Álaborgar eftir síðasta sundár.

Þjálfari Snæfríðar heitir Björn Sörensen, yfirþjálfari hjá Aalborg Svömmeklub, en hann tók einmitt við starfi Eyleifs Jóhannessonar sem hafði þjálfað hjá Álborg í 13. ár.

 

Sundfólkið kom til Tokyo sunnudaginn 18. júlí, Snæfríður var í æfingabúðum í Tama City en Anton Sveinn fór beint inn í Ólympíuþorpið, þau láta vel af sér og eru orðin mjög spennt að hefja keppni, en fyrst er það opnunarhátíðin þar sem sundfólkið fékk þann mikla heiður að bera fána okkar Íslendinga inn á Ólympíuleikvanginn í Tokyo. Þetta er í fyrsta sinn sem fánaberar þátttökulandanna eru tveir, ein kona og einn karl. Á leikunum í Tókýó er nánast jafn fjöldi kvenkyns og karlkyns keppenda og hafa hlutföllin aldrei verið jafnari á nokkrum Ólympíuleikum. Er stefnt að því að á leikunum í París 2024 verði fullu jafnvægi náð í fjölda keppenda af hvoru kyni.

Keppnisdagar:

Mánudagurinn 26. Júlí keppir Snæfríður í 200 metra skriðsundi

Þriðjudaginn 27. Júlí mun Anton keppa í 200 metra bringusundi

Miðvikudaginn 28. Júlí keppir Snæfríður í 100 metra skriðsundi

Allar upplýsingar um sundkeppnina og tímaáætlun er að finna á heimasíðu leikana https://olympics.com/tokyo-2020/olympic-games/en/results/swimming/olympic-schedule-and-results.htm

Einnig verður RÚV með umfjöllun og útsendingu frá leiknum.

 

 

Til baka