Nýjar reglugerðarbreytingar
SSÍ hefur á undanförnum vikum unnið að og samþykkt nýjar reglugerðarbreytingar sem hafa áhrif á komandi mót hjá okkur.
- Uppfærslur á reglugerðum móta
Reglugerð ÍM50 hefur verið uppfærð í samræmi við ákvarðanir og samþykktir Stjórnar SSÍ á síðastliðnum mánuðum. Þar ber helst að nefna að 400m greinar eru nú syntar bæði í undanrásum og úrslitum og að blönduð boðsund eru tekin út af mótinu. Blönduð boðsund verða þess í stað í boði á SMÍ, Sumarmóti SSÍ.
Þá hefur stjórn SSÍ samþykkt að verða við áskorunum úr hreyfingunni að fella úr gildi ákvæði í 5. grein reglugerðarinnar um að keppendur verði að ná lágmarkatíma greina í undanrásum til að eiga rétt á að synda í úrslitum. Þetta er gert tímabundið til prófunar og biðlar SSÍ þess í stað til keppenda og þjálfara að sýna háttvísi í keppni öllum stundum.
Stjórn SSÍ hefur einnig samþykkt að leyfa þeim sem eiga amk 1 lágmark á mótið að bæta við sig greinum án lágmarka, svo þau syndi að hámarki 3 einstaklingsgreinar. Viðkomandi þarf að eiga gildan tíma í greinum sem bætt er við og ekki verður hægt að nota þetta ákvæði til að skrá í 800m og 1500m skriðsund. Þetta er í grunninn það sem gert hefur verið á AMÍ síðastliðin ár og gefist vel.
Þessar breytingar eiga einnig við reglugerð ÍM25, nema blönduð boðsund haldast þar inni.
- Reglugerð um félagaskipti
Reglugerð um félagaskipti hefur verið uppfærð þar sem m.a. orðalag er aðlagað betur að tilgangi reglnanna.
- Reglugerð um íslensk met
Ný metaskrá er í vinnslu sem tekin verður í notkun í sumar. Hún heldur utan um nýju aldursflokkana okkar og nýtum við tækifærið í leiðinni og gerum allsherjar úttekt á metaskránum. Ný metaskrá listar Íslandsmet í opnum flokki karla og kvenna, unglingaflokkametum karla 16-18 ára og kvenna 15-17 ára og aldursflokkametum karla 13-15 ára og kvenna 12-14 ára.
Markmiðið er að koma nýrri skrá á lokað svæði á næstu vikum og gefa þjálfurum aðgang til að koma með athugasemdir um leiðréttingar áður en fullgerð skrá verður birt.
Gamla metaskráin verður uppfærð út þetta tímabil en verður lögð til hliðar eftir það.
Á vef SSÍ: http://www.sundsamband.is/efnisveita/log-og-reglur/