Beint á efnisyfirlit síðunnar

Dagur tvö á EM50

12.08.2022

Dagur tvö á EM50 hófst með 50m flugsundi kvenna. Þar synti Jóhanna Elín í fyrsta riðli og kom þriðja í bakkann á tímanum 27,71 sem er besti tími hennar á þessu ári. 

Símon Elías var næstur og synti 100m skriðsund í öðrum riðli á braut 9 og kom í bakkann á tímanum 51,94 sem er alveg við hans besta tíma í greininni.

Símon Elías tók þátt í opnunarhátíð keppninnar í gær og var þar fánaberi fyrir Íslands hönd. Hann stóð sig vel þar eins og við var að búast, en hitastigið á laugarbakkanum  var 34 gráður seinni partinn í gær.

Á morgun er enn einn spennandi dagurinn framundan og þá tekur Snæfríður Sól þátt í 200m skriðsundi. Hún lét vel af sér eftir æfinguna í morgun og hefur keppni kl 09:00 í fyrramálið og verður í fjórða og síðasta riðli.

Símon keppir þriðja daginn í röð á morgun þegar hann syndir 100m flugsund kl 09:15 í öðrum riðli. Nóg er að gera hjá Símoni, sem er að keppa á sínu fyrsta Evrópumeistaramóti.

Kl 09:42 á morgun er svo komið að Antoni Sveini í 200m bringusundi. Anton er skráður með fjórða besta tímann í greininni og mun hann synda í síðasta riðlinum á morgun á 5. braut. Anton Sveinn verður án efa tilbúinn í slaginn á morgun.   

Það er því óhætt að segja að það sé mikil og góð stemmning hér í Róm og spennandi keppni framundan.

 

Myndir með frétt

Til baka