Beint á efnisyfirlit síðunnar

NSF fundur í Helsinki

23.01.2023

Framkvæmdastjóri og yfirmaður landsliðsmála hjá Sundsambandi Íslands héldu til Helsinki í síðustu viku og sátu þar fund með framkvæmdastjórum og yfirmönnum landsliðsmála hjá hinum norðulöndunum.

Á fundinum var farið yfir stöðu mála hjá hverju landi fyrir sig og er óhætt að segja það að allir hafi verið glaðir eftir nokkuð eðilegt ár eftir þau tvö erfiðu þegar Covid-19 heimsfaraldurinn  setti allt úr skorðum.

 

Danir og Færeyingar hafa breytt um nafn hjá sínum sérsamböndum, Danir kalla sig núna Svöm Danmark og Færeyjar hafa tekið upp Aquatics.  Það hefur væntanlega ekki farið framhjá neinum að FINA, Alþjóða sundsambandið, breytti á þingi sínu í fyrra nafninu í World Aquatics.

 

Það var virkilega áhugavert að skoða Ólympíu miðstöð Finna í Helsinki, þar sem íþróttamenn og sérfræðingar vinna saman að bættum árangri. Þar er allt til staðar svo að hægt sé að þjálfa  afreksíþróttamenn í öllum greinum. Í miðstöð Finna er bæði menntaskóli og háskóli, en þar er einnig íbúðarhúsnæði sem fæst á góðum kjörum fyrir námsmenn. Allir íþróttamenn fá nauðsynlega aðstoð til að sinna íþróttum og námi samhliða. Ef einhver vill æfa í háfjallalofti, þá eru 10 herbergi í húsnæðinu fyrir þá einstaklinga svo að dæmi sé tekið. Þarna eru virkilega flottir lyftingasalir, herbergi til að meðhöndla þá sem eru að glíma við meiðsli og þurfa endurhæfingu.

Í dag eru 12 sundmenn að æfa í miðstöðinni, en til þess að fá að æfa í miðstöðinni þurfa sundmenn að hafa náð amk 720 FINA stigum

Sundlaugina er hægt að hafa bæði í 25m og 50m lengd á sama tíma, og um leið er hún opin 24/7 fyrir bestu sundfélög landsins. Sundfólkið fær alltaf æfingatíma þar á milli kl. 07:00 – 09:00 og aftur frá 15:00- 17:00 daglega. Þar er einnig virkilega góð aðstaða til bakkaupphitunar.

Byggingin lætur ekki mikið yfir sér að utan en að innan er hún virkilega vel hönnuð og það var mjög auðvelt að heillast af þessu fyrirkomulagi í Finnlandi. Þess má geta að nú er verið að byggja fimmtu Ólympíumiðstöðina í Finnlandi.

 

Það er alltaf gaman að hitta frændur okkar frá hinum Norðurlöndunum og heyra hvað þeir eru að gera fyrir sitt sundfólk. Það er mikill áhugi fyrir auknu samstarfi í kringum landsliðin okkar, t.d með því að vera meira saman í æfingabúðum fyrir stórmót á fjarlægum slóðum.

Hér er hægt að skoða miðstöðina í Helsinki: https://www.esitteemme.fi/Urhea-ENG/WebView/

Myndir með frétt

Til baka