Íslandsmót garpa hófst í sundlaug Kópavogs í dag - 12 garpamet féllu
Íslandsmót garpa í sundi, IMOC, hófst í sundlaug Kópavogs í gær föstudag.
Frábær andi er á mótinu og mikið af flottum sundum. 12 garpamet féllu á þessum fyrsta degi mótsins og ljóst að spennan verður í hámarki á lokadegi mótsins.
Mótið er stigakeppni milli félaga og leiðir Breiðablik að loknum fyrsta mótsdegi. Það getur þó allt gerst og því um að gera að fylgjast vel með framvindu mótsins.
Hægt er að fylgjast með úrslitum mótsins í rauntíma hér.
12 garpamet á fyrsta degi
Steinn Jóhannsson úr SH reið á vaðið þegar hann bætt garpametið í flokki 55-59 ára í 400m skriðsundi og 800m skriðsundi í sama sundinu. Liðsfélagi hans úr SH, Vilborg Sverrisdóttir gerði sér svo lítið fyrir og bætti garpametið í flokki 65-69 ára í 100m skriðsundi, 200m skriðsundi, 400m skriðsundi og 800m skriðsundi þegar hún keppti í 800m skriðsundi. Elín Björk Unnarsdóttir frá Rán á Dalvík bætti svo garpametið í 50m flugsundi í flokki 60-64 ára. Leifur Guðni Grétarsson úr Breiðabliki bætti garpametið í 100m bringusundi í flokki 30-34 ára og Ásta Þóra Ólafsdóttir bætti metið í sama sundi í flokki 60-64 ára. Peter Garajszki bætti svo metið í 50m skriðsundi í flokki 45-49. Vilborg Sverrisdóttir setti svo einnig met þegar hún stakk sér í 50m skriðsund í flokki 65-69 ára. Loks bætti sveit Breiðabliks í flokki 120-159 ára karla, 20 ára gamalt garpamet í 4x 50m skriðsundi.
Hægt er að nálgast lista yfir met sett á mótinu hér.
Stigastaðan eftir fyrsta mótsdag
Breiðablik leiðir kepnnina með 647 stig
Sundfélag Hafnarfjarðar er í öðru sæti með 466 stig
Sundfélag Akraness er í þriðja með 131 stig
Sundfélagið Ægir og UMSB eru jöfn að stigum í fjórða sæti með 42 stig
UMF Selfoss er í sjötta sæti með 31 stig
Íþróttabandalag Reykjanesbæjar er í sjöunda sæti með 19 stig
Sunddeild UMFB og Sundfélagið Rán eru jöfn í áttunda sæti með 15 stig hvort
Njarðvík er svo í tíunda sæti með 5 stig.