Tvö íslandsmet, 2 gull, 2 silfur 2 brons og 7 bætingar í sjötta hluta Smáþjóðaleikanna!
Næst síðasta úrslitahluta á Smáþjóðaleikunum lauk nú í kvöld og litu tvö íslandsmet dagsins ljós.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir setti sitt fjórða íslandsmet á leikunum,þegar hún synti 200m skriðsund á tímanum 1;58,91, gamla metið átti hún sjálf 1:59,75 sem hún setti í mars s.l. Snæfríður sigraði að sjálfsögðu í greininni.
Karla sveitin í 4x100m fjórsundi synti á nýju íslandsmet 3;46,66, og bættu 6 ára gamalt met en gamla metið var 3;47,67 og var sett á Smáþjóðaleikunum í San Marino í júní 2017. Stràkarnir urðu í þriðja sæti og var sveitin skipuð þeim Guðmundi Leo Rafnssyni, Antoni Sveini McKee, Símoni Elíasi Statkevicius og Ými Sölvasyni.
Anton Sveinn McKee tryggði sér sín önnur gullverðlaun þegar hann sigraði í 100m bringusundi á tímanum 1;01,35
Kvennasveitin í 4x100m fjórsundi tryggðu sér annað sætið á tímanum 4;16,12. Sveitin var skipuð þeim Ylfu Lind Kristmansdóttur, Birgittu Ingólfsdóttur, Völu Dís Cicero og Snæfríði Sól Jórunnardóttur, þær urðu í öðru sæti en aðeins munaði 14/100 á fyrsta og öðru sæti.
Jóhanna Elin Guðmundsdóttir bætti tíma sinn í 50m skriðsundi og tryggði sér þá um leið silfurverðlaun.
Birgitta Ingólfsdóttir vann einnig bronsverðlaun þegar hún bætti tímann sinn í 100m bringusundi þegar hún synti 1:11,74.
Fleiri flottar bætingar voru í lauginni í dag, Ýmir Sölvason synti 200m skriðsund á 1:56,09, sem er bæting á hans besta tíma, hann varð sjötti i í sundinu. Veigar Hrafn Sigþórsson varð fimmti í 200m skriðsundi þegar hann synti á sínum besta tíma 1:55,06. Eva Margrét bætti einnig tíma sinn í 100m bringusundi þegar hún synti á 1:13,99, hún varð í fimmta sæti. Guðmundur Leo Rafnsson synti fyrsta sprett í boðsundinu og bætti þar tíma sinn í 100m baksundi, 58,55.
Símon Elías Statkevicus synti 50m skriðsund og varð sjötti í greininni þegar hann syti á 23,49. Kristin Helga synti einnig 50m skrið á 26,82 og varð í fjórða sæti Daði Björnsson synti 100m bringusund á tímanum 1;03,58 og varð fimmti í sundinu. Vala Dís Cicero synti 200m skriðsund á tímanum 2:05,90 og varð í fjórða sæti.
Frábær dagur að baki í lauginni, 2 íslandsmet, 2 gull, 2 silfur og 2 brons og bætingar í 7 sundum, sem er virkilega góður árangur hjá sundfólkinu.
Síðasti keppnisdagur leikana hefst kl 10:00 í fyrramálið.