5 gull, 3 silfur og eitt brons á NÆM
Síðasti hluti á NÆM 2023 hófst í morgun og þá aftur með látum! Vala Dís Cicero sigraði í 400m skriðsundi og bætti tíma sinn um tæpar 4 sekúndur.
Hólmar Grétarsson hélt uppteknum hætti og tryggði sér silfurverðlaun í 400m skriðsundi þegar hann synti á tímanum 4:09,78 og bætti tíma sinn. Magnús Víðir tryggði sér bronsverðlaun í sama sundi þegar hann synti á 4:12,49 og bætti tíma sinn um 1,2 sekúndur. Hólmar synti einnig 200m fjórsund á tímanum 2:14,69 sem er bæting á hans besta tíma, en hann varð sjötti í greininni.
Sólveig Freyja synti einnig 400m skriðsund á tímanum 4:40,97 sem er alveg við hennar besta tíma og varð í 7. sæti, Ásdís Steindórsdóttir synti líka 400m skriðsund, hún bætti sig um rúmar 4 sekúndur þegar hún synti á tímanum 4:42,34, hún varð ellefta í sundinu.
Björn Yngvi synti einnig 400m skriðsund og varð fimmti á tímanum 4:13,32 og bætti tíma sinn um tæpar 4 sekúndur.
Ástrós Lovísa synti 200m baksund á tímanum 2:28,23 sem er aðeins frá hennar besta tíma, hún varð í fimmta sæti. Margrét Anna varð í sjötta sæti þegar hún synti 100m bringusund á 1:15,59 og bætti tíma sinn.
Stelpurnar tóku þátt í 4x200m skriðsundi og urðu í fjórða sæti á tímanum 8:54,36 en sveitina skipuðu þær Vala Dís, Hulda Björg, Sólveig Freyja og Ásdís Steindórs.
Þetta var virkilega flott mót hjá unga sundfólkinu okkar, það að tryggja sér 5 gullverðlaun, 3 silfurverðlaun og eitt brons er frábær árangur og framtíðin er virkilega björt hjá þessu sundfólki.