Beint á efnisyfirlit síðunnar

Anton Sveinn 7. í úrslitasundi 200 bringu. Frábært sund

28.07.2023

Anton Sveinn Mckee var að ljúka úrslitasundi í 200 metra bringusundi hér á HM50 í Fukuoka í Japan. Hann lauk sundi sínu á tímanum 2:09,50 mínútum sem er aðeins lakari tími en í gærkvöldi. Engu að síður var þetta frábært sund hjá Antoni, hann kom inn á bakkann afslappaður og var með besta viðbragðstímann við ræsingu. Hann náði að halda sér meðal fremstu manna 150 til 170 metrana, var lengi vel annar en stífnaði upp á síðustu 20 til 25 metrunum og dróst heldur afturúr. Þetta sund lofar mjög góðu fyrir verkefnin sem eru í framhaldinu sagði Anton að loknu sundi sínu, það er alltaf eitt og annað sem hægt er að bæta og nú verður gengið í það að laga það sem laga þarf.

Anton Sveinn hóf þessa vegferð í gærmorgun þegar hann fór níundi inn í undanúrslitin á tímanum 2:10,29. Í gærkvöldi varð hann svo sjöundi inn í úrslitin þegar hann synti undir A lágmarki á Ólympíuleikanna, 2:09,19.

Íslandsmetið hans Antons Sveins er 2:08,74 mínútur sett á HM50 í Búdapest 2022.

Heimsmetið í greininni átti Ástralinn Zac Stubblety-Cook frá því 2022, en það var 2:05,95 mínútur. Hann synti á fjórðu braut hér í kvöld en varð annar. Nýtt heimsmet leit dagsins ljós hér í Fukuoka, þegar Kínverjinn Haiyang Qin synti á tímanum 2:05,48 mínútur og tók þar með mótsmetið einnig. Sjá mynd hér að neðan

Gamla mótsmetið var frá því 2019 í Gwangju Kóreu, 2:06,12 mínútur, en það átti Rússinn Anton Chupkov.

Myndirnar tók Simone Castrovillari

Myndir með frétt

Til baka