Anton Sveinn tíundi og Snorri með tvöfalt unglingamet
Þeir Anton Sveinn McKee og Snorri Dagur Einarsson syntu nú seinnipartinn 100m bringusund í 16 manna úrslitum á EM25 í Búkarest. Þetta er í annað skipti í sundsögunni sem það gerist að það séu tveir sundmenn í undanúrslitum í sömu grein, en það gerðist síðast árið 2004 þegar þær Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir og Ragnheiður Ragnarsdóttir syntu í 16 manna úrslitum í 100m skriðsundi á EM.
Anton Sveinn varð tíundi í sundinu á tímanum 58;12 sem er annar besti tími hans á árinu, og er hann varamaður inn í úrslitin sem fara fram annað kvöld. Anton Sveinn syndir svo sína aðalgrein, 200m bringusund á föstudaginn.
Snorri Dagur Einarsson þreytti sína frumraun í undanúrslitum á stórmóti í dag, hann gerði sér lítið fyrir og bætti tíma sinn síðan í morgun og setti aftur unglingamet,þegar hann synti á 58.57 og ekki nóg með það setti hann einnig unglingamet í 50m bringusundi en millitími hans var 27,16. Snorri varð í 16.sæti í sundinu. Snorri mun synda aftur á laugardaginn þegar hann fer 50m bringusund.
Frábær dagur í sundlauginni í dag og við bíðum spennt eftir morgundeginum en í fyrramálið syndir Birnir Freyr Hálfdánarson 200m fjórsund og þær Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Jóhanna Elín synda 100m skriðsund.