Beint á efnisyfirlit síðunnar

Anton Sveinn í öðru sæti í kjöri samtaka Íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins 2023

05.01.2024 

Okkar maður Anton Sveinn McKee var í öðru sæti í kjöri Samtaka Íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins 2023 með 372 stig.

Það er mikið fagnaðarefni að Sundsamband Íslands hafi átt tvo fulltrúa á lista yfir þau 10 efstu, en það gerðist síðast árið 2016 þegar Hrafnhildur Lúthersdóttir varð í öðru sæti og Eygló Ósk Gústafsdóttir í fimmta sæti.

Sundmaðurinn Anton Sveinn er sannarlega vel að kjörinu kominn enda var árangur hans árið 2023 afar glæsilegur. Anton Sveinn vann til silfurverðlauna á EM25 í desember 2023 og varð í sjöunda sæti á HM50 í júní 2023. Þá er Anton Sveinn í 2. sæti á heimslistanum og Evrópulistanum  í 200m bringusundi í 25m laug. 

Í 50 metra laug er hann í 15. sæti á heimslistanum í 200m bringusundi og í 5. sæti á lista yfir hröðustu sundmenn í Evrópu í sömu grein.

Snæfríður Sól var í 10. sæti í vali Samtaka íþróttafréttamanna, en þetta er í fyrsta sinn sem hún er á lista efstu tíu.

Snæfríður Sól varð í 14. sæti í 200m skriðsundi á Heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Fukuoka í júní 2023 og í 17. sæti á sama móti í 100 metra skriðsundi. 

Í desember keppti Snæfríður Sól á Evrópumeistaramótinu í 25m laug í Búkarest þar sem hún varð í 7. sæti í 200m skriðsundi.

 

Snæfríður Sól setti samtals 13 Íslandsmet á árinu og er hún í sjötta sæti á lista yfir hröðustu sundkonur í Evrópu í 200m skriðsundi í 25m laug og hún er einnig í sjötta sæti á heimslistanum í sömu grein. Í 50m laug er Snæfríður í 11. sæti á Evrópulistanum og í 44. sæti á heimslistanum.

Við hjá SSÍ erum að sjálfsögðu afar stolt af þeim Antoni og Snæfríði Sól, en árið var einnig gott hjá unga og efnilega sundfólkinu okkar sem á framtíðina fyrir sér.

Við öll hjá SSÍ horfum björtum augum fram á við og stefnum enn hærra.

Það voru þær Helga Margrét Sveinsdóttir móðir Anton Sveins og Íris Alma Össurardóttir frænka Snæfríðar sem tóku við viðurkenningunni fyrir hönd sundfólksins í gær. 

Til baka