Frábær dagur á EM50 - tvö í úrslitum og eitt Íslandsmet
Þvílík sund sem fram fóru nú rétt í þessu á EM50!
Anton Sveinn varð í fjórða sæti í 200m bringusundi á tímanum 2:10,28 og var Anton því aðeins 8/100 frá þriðja sætinu. Hrikalega spennandi sund þar sem tveir sundmenn enduðu á nákvæmlega sama tímanum 2:09,45, en sá þriðji var á tímanum 2:10, 20. Frábær árangur hjá okkar manni.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir hélt spennunni í loftinu þegar hún synti strax á eftir Antoni 200m skriðsund og endaði hún líka í fjórða sæti. Snæfríður sló Íslandsmetið sitt síðan í gær og synti á tímanum 1:58,85 sem er nákvæmlega sami tími og boðstíminn er á Ólympíuleikana í París í sumar.
Anton og Snæfríður hafa nú lokið keppni á EM50 og við tekur þeirra lokaundirbúningur fyrir Ólympíuleikana í París.
Frábært mót hjá þeim báðum, tvö íslandsmet og fjórða sætið í tvígang.
Við erum samt hvergi nærri hætt á EM50 því við eigum þrjá sundmenn sem synda í fyrramálið, en þá mun Jóhanna Elín synda 50m skriðsund og þeir Einar Margeir og Snorri Dagur synda 50m bringusund.
Æsispennandi dagur framundan á morgun, áfram Ísland !