Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sundfélagið Ægir leitar að yfirþjálfara

12.07.2024

Yfirþjálfari Sundfélagsins Ægis

 

Sundfélagið Ægir leitar að metnaðarfullum og ábyrgum yfirþjálfara til starfa í yngri hópum félagsins með sérstaka áherslu á uppbyggingu félagsins í Breiðholti. Um er að ræða þjálfun á Höfrunga og Laxa hópum en þeir hópar samanstanda af krökkum á aldrinum 8 - 11 ára. Þessir hópar eru með æfingaaðstöðu í Breiðholtslaug og Ölduselslaug.

 

Við leitum að einstaklingi sem hefur ánægju af því að starfa við íþróttaþjálfun barna og sækist eftir tækifæri til að vinna að og móta metnaðarfullt langtíma verkefni með stjórn félagsins og öðrum þjálfurum að enduruppbyggingu og nútíma aðlögun sundíþróttarinnar í stærsta og fjölbreyttasta hverfi Reykjavíkur.

 

Yfirþjálfari Ægis fylgist með frammistöðu þjálfunar á öllum stigum, stuðlar að umhverfi þar sem áhersla er lögð á þátttöku og inngildingu allra barna í Breiðholti sem vilja kynnast sundíþróttinni og fylgir því eftir að þjálfun sé í samræmi við markmið og gildi félagsins.

 

Yfirþjálfari heldur uppi góðu skipulagi á starfseminni, heldur góðu tengslaneti og starfsanda meðal þjálfara og stuðlar að uppbyggilegum og góðum samskiptum við foreldra og forráðamenn með það að markmiði að leggja grunninn að sterkri liðsheild og framtíðar sundfjölskyldu Ægis.

 

Helstu verkefni og ábyrgð

  • -Umsjón með skipulagningu og framkvæmd sundæfinga hópanna samkvæmt æfingatöflu félagsins og skráningum á sundmót.
  • -Umsjón með skráningum og hópaskiptingum iðkenda í Sportabler kerfi félagsins.
    • -Sinnir samskiptum við foreldra iðkenda t.d. með því að svara fyrirspurnum, senda út upplýsingapósta um starfið og/eða halda foreldraviðtöl.
    • -Vinnur náið með stjórn félagsins að verkefnum tengdum nýliðun og stefnumótun í Breiðholti.
    • -Tekur þátt í kynningu og auglýsingum á starfi félagsins t.d. með því að sýna frá starfinu á samfélagsmiðlum, halda kynningar í grunnskólum, rækta sambönd við starfsfólk grunnskóla í Breiðholti og skipuleggja opna daga í Gerðubergi/Breiðholtslaug.
    • -Yfirumsjón með vinnuskólahópum, frístundar/leikskóla- og sumarsundnámskeiðum félagsins.
    • -Viðvera við æfingar yngri hópanna er að jafnaði 3 - 4 virka daga í viku á milli kl. 16 og 19 eða eftir nánara samkomulagi
  • -Einnig er um að ræða viðveru á sundmótum um helgar eftir samkomulagi.
  • -Regluleg stefnumótunarvinna í samstarfi við sundfólk og foreldra.

     

    Menntunar- og hæfniskröfur

  • -Mikilvægt er að viðkomandi hafi reynslu af sundþjálfun barna og ungmenna.

  • -Íþróttafræðimenntun og sérhæfing í sundþjálfun er nauðsyn.

  • -Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum, sérstaklega við börn og forráðamenn þeirra.
  • -Geta til að sinna starfinu í sveigjanlegum vinnutíma í samræmi við þarfir og eðli starfseminnar.
  • -Skilyrði fyrir ráðningu er að viðkomandi hafi hreint sakavottorð.

 

Í boði er krefjandi en skemmtilegt starf með öðru drífandi og áhugasömu fólki. Um er að ræða hlutastarf sem snýst að stórum hluta um uppbyggingu sterkrar sundheildar, persónulegum afreksárangri og samskiptum við fólk innan félags og utan.

 

Viðkomandi fær einstakt tækifæri og umboð til þess að starfa í stærsta hverfi Reykjavíkur við að móta og aðlaga sundþjálfun eins elsta sundfélags Íslands að þörfum og áskorunum nútíma fjölmenningar umhverfis og að innleiða nýjar áherslur og nálganir til þess að sækja nýja og stuðla að varðveislu núverandi iðkenda í íþróttinni.

 

Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf í haust.

Allar upplýsingar gefur Helgi Þór Þórsson formaður félagsins í síma 856-2045 og á formadur@aegir.is.

Til baka