Beint á efnisyfirlit síðunnar

Stærsta íþróttahátíð heims Ólympíuleikarnir í París verða settir í kvöld

26.07.2024
Stærsta íþróttahátíð heims Ólympíuleikarnir í París verða settir í kvöld! Eins og allir vita þá eru tveir sundmenn á leikunum frá Sundsambandi Íslands, þau Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Anton Sveinn McKee.
Anton Sveinn mun hefja keppni strax í fyrramálið kl 9:30 í 100m bringusundi, en hann er skráður með 26 besta tímann í greininni. Anton er mættur á sína fjórðu Ólympíuleika og er í mjög góðu formi og hefur undirbúið sig vel. Hann mun synda sitt aðalsund næstkomandi þriðjudag, 200m bringusund þar sem hann er skráður með 13 besta tímann.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir mun hefja keppni á sunnudaginn í sinni aðalgrein 200m skriðsundi en þar er hún skráð með 17 besta tímann. Hún mun einnig synda á þriðjudaginn 100m skriðsund. Snæfríður Sól er mætt á sína aðra leika og er reynslunni ríkari frá því í Tokyo 2020/21. Hún er mjög vel stemmd fyrir keppnina framundan.
Það verður virkilega gaman að fylgjast með okkar fólki næstu daga en með þeim Snæfríði og Antoni er yfirmaður landsliðsmála hjá SSÍ Eyleifur Jóhannesson og Sergio Lopez þjálfari Antons til margra ára. Þeir ásamt frábæru fagteymi og fararstjórum frá ÍSÍ halda vel utan um okkar fólk.
Hægt er að fylgjast með í beinni útsendingu á RÚV, úrslit er hægt að finna hér :https://www.worldaquatics.com/.../olympic.../schedule...
Sendum þessu flotta sundfólki góða strauma til Parísar!
Áfram Ísland!

Myndir með frétt

Til baka