Þjálfararáðstefna á Selfossi
Sundsamband Íslands hélt um helgina (laugardaginn 21. og sunnudaginn 22. september) þjálfararáðstefnu á Selfossi og tóku tæplega 30 þjálfarar þátt að þessu sinni. Ráðstefnan var haldin í kjölfar mælingadaga og landsliðsæfinga hjá sundlandsliðinu. Ragnar Guðmundsson frá Optimizar tók mjólkursýrumælingar á sundfólkinu miðvikudag og fimmtudag og Mark Faber stjórnaði síðan landsliðsæfingu á föstudeginum ásamt Eyleifi Ísak Jóhannessyni yfirmanni landsliðsmála hjá SSÍ og Dadó Fennri Jasmínusyni frá SH.
Á ráðstefnunni í ár var Mark Faber aðalfyrirlesari en hann hefur starfað sem yfirlandsliðsþjálfari Hollendinga. Hann hefur m.a. þjálfað Arno Kamminga sem var tvöfaldur silfurverðlaunahafi á Ólympíuleikunum í Tokyo 2020. Tes Schouten sem varð heimsmeistari í 200m bringusundi í febrúar á þessu ár en hún og Casper Corbeau unnu bæði til bronsverðlauna á ÓL í París í sumar.
Mark Faber fór yfir hvernig það væri að vera þjálfari í hjá „high performance center“ í Hollandi og hvað þeir telja vera árangursríkasta leiðin til að byggja upp ungt sundfólk fyrir framtíðina. Einnig fór hann yfir hvernig mögulega væri hægt að innleiða sund fatlaðra inn í félög og sundsambönd. Óhætt er að segja að Mark hafi staðið undir væntingum sem virkilega góður fyrirlesari og sköpuðust mjög góðar og gagnlegar umræður í kjölfarið á fyrirlestrum hans.
Dadó Fennrir Jasmínarson hélt erindi um reynslu sína í Danmörku en hann dvaldi þar í 2 ár. Dadó hefur sannanlega fengið mikla og góða reynslu af verunni í Danmörku. Við fögnum því að hann sé komin heim aftur, fullur af eldmóði og farinn að þjálfa hjá gamla félaginu sínu, SH.
Dr Milos Perovic frá Háskóla Íslands fór yfir styrktarmælingar í sundi. En hann tók einnig styrktarmælingar á sundfólkinu á mælingadögunum. Fyrirlestur hans var mjög áhugaverður og mun vafalítið hjálpa þjálfurum að skoða þennan þátt í þjálfun sundmanna enn betur.
Yfirmaður landsliðsmála hjá SSÍ fór yfir síðasta tímabil og hvað væri framundan á þessu sundári. Jafnframt var litið um öxl og farið yfir síðustu fjögur ár. Í kjölfarið fóru fram mjög góðar og gagnlegar umræður um framtíð og fortíð SSÍ.
Þetta er í fjórða skiptið sem þessi ráðstefna er haldin og er óhætt að segja að allir hafi farið glaðir heim og eru strax farin að hlakka til næstu ráðstefnu eða fræðsludags sem verður að ári.