Fjórar íslenskar konur syntu yfir Ermarsundið
Fjórar íslenskar konur sem kalla sig Valkyrjurnar syntu yfir Ermarsundið í boðsundi 28. september sl., og er það fyrsta boðsundssveitin frá Íslandi þar sem aðeins fjórir einstaklingar synda yfir. Í sveitinni voru María Fanndal Birkisdóttir, Iðunn Ása Óladóttir, Ásta Þóra Ólafsdóttir og Ísey Gréta Þorgrímsdóttir. Sveitin synti yfir á 12 klukkustundum og 56 mínútum og er það annar besti tími sem íslensk sveit hefur synt á. Ermarsundið er 34 km í beinni línu en sterkir straumar gera sundið yfirleitt lengra. Skemmtilegt er að segja frá því að Ásta Þóra er elsti Íslendingurinn svo vitað sé til að hafa synt Ermarsund en hún er 61 árs. Í boðsundi syndir einn sundmaður í einu, klukkutíma í senn þar til komið er til Frakklands. Valkyrjurnar lögðu af stað kl. 05:38 að morgni til frá Dover í Bretlandi og komu til Frakklands eftir kvöldmat en þá var skollið á myrkur. Hver og ein synti þrisvar sinnum en María byrjaði á sínum fjórða sprett og kláraði þá sundið þegar hún kom í land í Frakklandi. Valkyrjurnar höfðu haldið til í Bretlandi í rúma viku fyrir sundið og biðu í sex daga eftir að veðurgluggi opnaðist, en hvasst hafði verið sem kom í veg fyrir að sundið gæti hafist fyrr. Með í för var Benedikt Hjartarson sem var sveitinni til halds og trausts, enda reynslubolti þegar kemur að Ermarsundinu en hann var fyrsti Íslendingurinn til að synda Ermarsundið en það gerði hann árið 2008.
Þess má geta að til að hefja sundið þarf að taka 2 klukkustunda vottunarsund í sjó sem er kaldari en 15,5c, en við Valkyrjurnar tókum það í 11°c sjó, sem er frekar kalt í svona langan tíma en sjórinn á Íslandi fór sjaldan yfir 12 gráður í sumar. Góður undirbúningur hjá Valkyrjunum skilaði sér í þessu sundi en þær höfðu verið mjög duglegar að æfa bæði í sundlaug og sjónum, auk þess sem þær syntu í myrkri til að vera viðbúnar því. Einnig hittu þær sálfræðinga hjá Heil Heilsumiðstöð sem aðstoðaði þær við að byggja upp andlegan styrk, teymisandann og gildi sem við vildum hafa að leiðarljósi í þessu ferðalagi og í sundinu sjálfu, en þau voru Hugrekki - Þrautseigja - Hvatning - Gleði - Vinátta.
Valkyrjurnar æfa sund með görpum í sunddeild Breiðabliks og stunda einnig reglulega sjósund.
Frábær árangur hjá Valkyrjunum- Innilega til hamingju með árangurinn