Frábær árangur á ÍM25 - fimm Íslandsmet og 7 sundmenn komnir á HM25
Íslands- og unglingameistaramótið í sundi hófst í morgun í Ásvallalaug í Hafnarfirði.
Mótið hófst með látum í dag, fimm Íslandsmet, tvö unglingamet og fimm HM25 lágmörk litu dagsins ljós í dag, en HM25 fer fram í Búdapest 10. – 15 desember.
Birnir Freyr Hálfdánarson, SH bætti 17 ára gamalt Íslandsmet Arnar Arnarsonar í 100m flugsundi þegar hann synti á tímanum 52,51. Birnir tvíbætti einnig unglingametið í greininni í dag, bæði í undanrásum í morgun og í úrslitum í kvöld.
Símon Elías Statkevcius , SH bætti 16 ára gamalt Íslandsmet Árna Más Árnasonar í 50m skriðsundi þegar hann synti á tímanum 21,93, Símon tryggði sér einnig lágmark á HM25 í sundinu.
Karlasveit SH í 4x50 fjórsundi karla bætti einnig 17 ára gamalt Íslandsmet í morgun þegar þeir syntu á tímanum 1:38,70. Sveitina skipuðu þeir Bergur Fáfnir Bjarnason, Snorri Dagur Einarsson, Birnir Freyr Hálfdánarson og Símon Elías Statkevicius. Kvennasveit SH setti einnig Íslandsmet í 4x200m skriðsundi og bætti þar með 15 ára Íslandsmet í greininni þegar þær syntu á 8:14,55. Sveitina skipuðu þær Nadja Djurovic, Katja Lilja Andryisdóttir, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Vala Dís Cicero.
Karlasveit SH setti sitt annað Íslandsmet í dag þegar drengirnir syntu 4x200m skriðsund á tímanum 7:17,71 en metið var síðan á ÍM25 í fyrra. Sveitina skipuðu þeir Ýmir Chateney Sölvason, Birnir Freyr Hálfdánarson, Magnús Víðir Jónsson og Veigar Hrafn Sigþórsson.
Vala Dís Cicero, SH setti unglingamet í 400m skriðsundi í morgun í undanrásum og tryggði sér einnig lágmark á HM25. Einar Margeir Ágústson ÍA tryggði sér einnig lágmark á HM25 í tvígang í dag í 100m fjórsundi. Það gerði einnig Guðmundur Leó Rafnsson ÍRB í 200m baksundi, en Guðmundur hafði synt undir lágmarkinu á Cube mótinu í lok október. Snorri Dagur Einarsson synti einnig aftur undir HM25 lágmarki í dag í 100m bringusundi.
Þvílíkur árangur í dag!
Nú hafa 7 sundmenn tryggt sig inn á HM25 í desember:
Einar Margeir Ágústsson
Guðmundur Leó Rafnsson
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir
Símon Elías Statkevicius
Snorri Dagur Einarsson
Snæfríður Sól Jórunnardóttir
Vala Dís Cicero