Beint á efnisyfirlit síðunnar

Metin héldu áfram að falla á öðrum degi ÍM25 í Hafnarfirði

09.11.2024

Sundveislan hélt áfram í Ásvallalaug í Hafnarfirði á öðrum degi Íslands- og unglingameistaramótsins í 25m laug. Mikið af flottum sundum og góðar bætingar hjá sundfólkinu sem greinilega er í miklum ham um helgina.

Nýtt Íslandsmet leit dagsins ljós í undanrásum í morgun, þegar sveit SH synti 4x50m fjórsund á tímanum 1:45,60 og bættu tveggja ára gamalt met sitt. Sveitina skipuðu þau Bergur Fáfnir Bjarnason, Snorri Dagur Einarsson, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Vala Dís Cicero. 
 
Guðmundur Leo Rafnsson í Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar gerði sér lítið fyrir og setti nýtt unglingamet í 50m baksundi þegar hann synti á 24,99, en fyrra metið átti Kristinn Þórarinsson frá 2014, 25,18.
 
Í 200m skriðsundi setti Vala Dís Cicero í Sundfélagi Hafnarfjarðar nýtt unglingamet þegar hún bætti 16 ára gamalt met Sigrúnar Brár Sverrisdóttur og synti á tímanum 1:58,63.
 
Snorri Dagur Einarsson í Sundfélagi Hafnarfjarðar og Einar Margeir Ágústsson í Sundfélagi Akraness syntu báðir undir lágmarki á HM í 50m bringusundi og mun Snorri Dagur synda það sund í Búdapest eftir að hafa sigrað greinina í dag.
 
Boðsundin voru æsispennandi í þessum kvöldhluta og mikil barátta fram á síðustu metrana. Sveit Sundfélags Hafnarfjarðar sigraði í 4x 100m skriðsundi karla á nýju Íslandsmeti, 3:17,84. Sveitina skipuðu þeir Birnir Freyr Hálfdánarson, Ýmir Chatenay Sölvason, Símon Elías Statkevicius og Veigar Hrafn Sigþórsson. Fyrra metið átti sveit Íþróttabandalags Reykjanesbæjar frá 2016 sem var 3:22,49 en til gamans má geta að sveit Íþróttabandalags Reykjanesbæjar synti einnig undir gamla metinu í dag á tímanum 3:22,14
 
Birnir Freyr Hálfdánarson gerði sér einnig lítið fyrir í fyrsta sprettinum í boðsundinu, synti 100m skriðsund á 49,37. Hann sló þar 26 ára gamalt unglingamet Arnar Arnasonar frá 1998 sem var 49,71.
 
Sveit Sundfélags Hafnarfjarðar sigraði einnig í 4x100m skiðsundi kvenna á nýju Íslandsmeti, 3:45,58. Sveitina skipuðu þær Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Katja Lilja Andriyusdóttir, Nadja Djurovic og Vala Dís Cicero. Gamla metið átti Sundfélag Hafnarfjarðar frá því í fyrra, 3:47,89.
 
Nú hafa 8 sundmenn tryggt þátttöku sína á HM25 sem fram fer í Búdapest í desember og 12 sundmenn sem hafa náð lágmörkum á Norðurlandameistaramótið sem fram fer í Danmörku einnig í desember. 
 
Enn einn frábær dagur að baki á Íslandsmeistaramótinu í sundi en lokadagur mótsins fer fram á morgun sunnudag. 
 
Streymi er hægt að sjá hér : https://www.sund.live/channel?name=im25
Lifandi úrslit eru hér : https://live.swimrankings.net/43947/

 

Til baka