Beint á efnisyfirlit síðunnar

HM25 hefst í fyrramálið í Búdapest

09.12.2024

Heimsmeistaramótið í 25m laug hefst á morgun, þriðjudaginn 10. desember í Búdapest í Ungverjalandi og stendur til 15. desember.

Sundsamband Íslands sendir að þessu sinni 8 keppendur og hafa þeir ekki verið fleiri á Heimsmeistaramóti í sundi síðan árið 2016. Að þessu sinni sendum við ungan og efnilegan hóp ásamt þeim Snæfríði Sól og Jóhönnu Elínu sem eru reynslumiklar sundkonur. 

 

Keppendur á mótinu eru:

Birnir Freyr Hálfdánarson SH

Einar Margeir Ágústsson ÍA

Guðmundur Leó Rafnsson ÍRB

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir SH

Símon Elías Statkevicius SH

Snorri Dagur Einarsson SH

Snæfríður Sól Jórunnardóttir Alaborg

Vala Dís Cicero SH

 

Með þeim eru

Eyleifur Jóhannesson yfirmaður landsliðsmála hjá SSÍ

Dadó Fennrir Jasmínuson þjálfari hjá SH

Kjell Wormdal þjálfari ÍA

Hlynur Sigurðsson sjúkraþjálfari/nuddari

Hrafnhildur Lúthersdóttir mun sjá um media

 

Á Heimsmeistaramóti í 25m laug er keppt í undanrásum að morgni í öllum greinum. Sextán bestu sundmennirnir komast í undanúrslit í 50m og 100m greinum en aðeins 8 sundmenn komast í úrslit í lengri greinum þ.e. 200m, 400m, 800m og 1500 metra sundgreinum. 

Það verður spennandi að fylgjast með  Snæfríði Sól Jórunnardóttur á heimsmeistaramótinu í ár. Samkvæmt keppendalistanum er Snæfríður með 18 besta tímann í 100m skriðsundi og 8 besta tímann inn í 200m skriðsundi og er þannig næst því að komast í undanúrslit eða úrslit af íslensku keppendunum. Á síðasta HM25 árið 2022 varð hún í 11 sæti í 200m skriðsundi.

Það verður ekki síður spennandi að fylgjast með Snorra Degi Einarssyni en hann komst í undanúrslit í 50m bringusundi á Evrópumeistaramótinu í sumar í 50m laug. Þá var Einar Margeir alveg við það að komast í undanúrslit á EM50 í sumar, hann hefur verið að sýna mjög miklar framfarir að undanförnu.

Þeir Birnir Freyr og Guðmundur Leó eru ungir og efnilegir og hafa báðir náð að komast í undanúrslit á Evrópumeistaramóti unglinga. Það verður því gaman að fylgjast með þeim á stóra sviðinu og hið sama má segja um Völu Dís Cicero, unga sundkonu sem er að stíga sín fyrstu skref á sviði þeirra bestu. Vala Dís er aðeins 16 ára gömul og hefur verið að bæta sig mikið undanfarið ár. Hún gæti komið á óvart á heimsmeistaramótinu í ár en hún mun hefja keppni fyrst af Íslenska sundhópnum og synda 400m skriðsund sem er fyrsta grein mótsins á þriðjudaginn.

Strax á eftir henni mun Guðmundur Leó synda 100m baksund og síðan koma þau Símon Elías og Jóhanna Elín, en þau synda bæði 50m flugsund. Símon Elías setti glæsilegt nýtt Íslandsmet í 50 m skriðsundi  á ÍM25 í nóvember s.l.  Þá keppir Birnir Freyr einnig á þriðjudaginn, en hann syndir 200m fjórsund. 

RÚV mun sýna frá mótinu alla morgna og mun einnig sýna úrslitasund ef sundfólkið kemst áfram. Það verður virkilega spennandi að fylgjast með sundfólkinu okkar næstu daga.

Úrslit hér : https://www.worldaquatics.com/competitions/3433/world-aquatics-swimming-championships-25m-2024/results

 

Myndir með frétt

Til baka