Glæsilegt nýtt Íslandsmet hjá Snæfríði Sól, er ellefta inn í undanúrslit kvöldsins
HM25 hófst með látum í morgun þegar Snæfríður Sól Jórunnardóttir setti glæsilegt nýtt Íslandsmet í 100m skriðsundi þegar hún synti á 52,77, gamla metið var 53,13. Snæfríður synti sig inn í undanúrslitin sem fram fara í kvöld, en hún varð ellefta inn í undanúrslitin. RÚV mun sýna frá úrslitasundinu kl 16:53 í dag.
Snorri Dagur Einarsson synti 100m bringusund í morgun á tímanum 59.01 sem er alveg við hans besta tíma 58,57 og varð hann í 36 sæti. Snorri á eftir að synda 50m bringusund en það fer fram laugardaginn 14.des.
Ísland átti boðsundsveit í 4x 50m fjórsundi í morgun, en það voru þau Guðmundur Leó Rafnsson, Snorri Dagur Einarsson, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Vala Dís Cicero sem syntu þar á tímanum 1:44,06 og voru alveg við íslandsmetið í greininni, 1:43,84. Þau urðu í 19 sæti. Þess má geta að Guðmundur Leó synti undir unglingametinu sínu í 50m baksundi í fyrsta spretti, en það met er ekki gilt þar sem um er að ræða blandaða boðsundsveit, þar sem tvær konur og tveir karlar eru í sveitinni.
Við bíðum spennt eftir undanúrslitum í 100m skriðsundi sem fram fara kl 16:53 í dag og sýnt verður frá sundinu á Rúv.is.