Beint á efnisyfirlit síðunnar

Nýtt Íslandsmet í morgun- 5 íslandsmet og i unglingamet á HM25 2024

15.12.2024

Strákarnir okkar syntu gríðarlega vel á lokadegi HM25 þegar þeir settu nýtt Íslandsmet í 4x100m fjórsundi. Þeir bættu Íslandsmetið um rúmar 5 sekúndur þegar þeir syntu á tímanum 3:33,68, gamla metið var síðan 2016, 3:39,48 sett á HM25 í Windsor í Kanada. Sveitina skipuðu þeir Guðmundur Leó Rafnsson, Snorri Dagur Einarsson, Birnir Freyr Hálfdánarson og Símon Elías Statkevicius, þeir urðu í 23. Sæti. Virkilega góður árangur hjá strákunum.

Snæfríður Sól synti í morgun sína aðalgrein, 200m skriðsund á tímanum 1:55,48 og varð í 14. sæti. Snæfríður komst ekki áfram í úrslit þar sem reglurnar á HM25 eru þannig að það eru eingöngu 8 sem komast í úrslit í 200m greinum, en ekki 16 eins og á HM50, EM50, og EM25.  Þess má geta að Íslandsmet Snæfríðar 1:54,23 hefði nægt henni inn í úrslita sundið síðar í dag. Engu að síður flottur árangur hjá Snæfríði á HM25 sem tvíbætti Íslandsmet sitt í 100m skriðsundi og varð þar í 13 sæti. Snæfríður var einnig í blönduðu boðsundsveitunum tveim sem settu Íslandsmet á mótinu. Flottur árangur hjá Snæfríði sem sýnir að hún á nóg inni, en hún bætir sig nánast á hverju móti.

Guðmundur Leó Rafnsson synti mjög vel 200m baksund og bætti tíma sinn í greininni þegar hann synti á 1:55,27, gamli tími hans var 1:55,79. Guðmundur Leó nálgast nú óðfluga 25. ára gamalt unglingamet Arnar Arnarssonar 1:54,23. Guðmundur varð í 25 sæti, virkilega fínn árangur hjá Guðmundi á fyrsta stórmóti sínu en hann er ungur að árum og á framtíðina fyrir sér.

Þá hafa íslensku keppendurnir lokið keppni á HM25 í Búdapest með virkilega fínum árangri, 5 íslandsmet, 1 unglingamet og margar persónulegar bætingar. Mótið í ár var gríðarlega sterkt en nú þegar hafa verið sett 22 heimsmet og enn er einn úrslitahluti eftir, það hafa ekki verið sett svona mörg heimsmet síðan 2014.

Sundsambandið óskar sundfólkinu til hamingju með flottan árangur á HM25 2024.

Til baka