Beint á efnisyfirlit síðunnar

Guðlaugssund fer fram 12. mars

25.02.2025

Þann 12. mars nk. verða 40 ár liðin frá því að fyrsta Guðlaugssundið var synt.

Guðlaugssundið verður haldið þennan dag, bæði í Laugardalslauginni í Reykjavík og sundlauginni í Vestmannaeyjum. Tilefnið er að minnast björgunarafreks Guðlaugs Friðþórssonar, sem synti til lands eftir að báturinn Hellisey VE fórst um 6 km frá landi þann 11. mars 1984.

Frá árinu 1985 hefur þessi viðburður verið haldinn árlega í Vestmannaeyjum, en frá 2005 hefur hann einnig verið haldinn “uppi á landi”, fyrst í Vesturbæjarlauginni og síðar í Sundlaug Seltjarnarness.

Frá árinu 2011 hefur sundið farið fram í Laugardalslauginni.

Auk þess að minnast þessa einstaka björgunarafreks Guðlaugs er sundið einnig haldið til að heiðra minningu allra þeirra sem hafa endað líf sitt í greipum Ægis, og þá sérstaklega áhafnarinnar á Hellisey VE.

Með þessum viðburði er einnig verið að vekja athygli á öryggismálum sjómanna.

Björn Skúlason, maki forseta Íslands, tekur þátt í sundinu í Laugardalnum í ár til að minnast þessara tímamóta.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt eru beðnir um að hafa samband við Kristján Gíslason í síma 820-1010 eða á kristjan.gisla@gmail.com

Þátttakendur geta valið hversu langa vegalengd þeir synda, sundið hefst kl 07:00 og ætti að vera lokið  fyrir kl. 10:00, þegar kaffisamsætið hefst.

Guðlaugssund er 6 km.


Til baka