Flottur lokadagur á ÍM50 2025
Birnir Freyr Hálfdánarson hélt uppteknum hætti á Íslandsmeistaramótinu í dag og gerði sér lítið fyrir og setti sitt annað Íslandsmet í einstaklingsgrein þegar hann sigraði í 50m flugsundi á tímanum 23,99. Birnir Freyr setti samtals fjögur Íslandsmet um helgina, eitt á föstudaginn í 100m flugsundi, í gær í 4x100m skriðsundi og svo í lokagrein ÍM50 í dag í 4x100m fjórsundi þegar karlasveit SH synti á tímanum 3:46,58.
Sveitina skipuðu þeir Bergur Fáfnir Bjarnason, Snorri Dagur Einarsson, Birnir Freyr og Símon Elías Statkevicius.
Síðasti úrslitahluti ÍM50 hófst með 100m flugsundi kvenna og þar sigraði Nadja Djurovic á tímanum 1:01,93 og synti um leið undir EMU lágmarki (Evrópumeistaramót unglinga) en það fer fram í Slóvakíu í júní.
Hólmar Grétarsson sigraði í 400m fjórsundi á tímanum 4:33,02 og synti einnig undir EMU lágmarki í greininni. Hólmar sigraði einnig í 200m flugsundi í gær.
Í 1500m skriðsundi kvenna sigraði Katja Lilja Andryisdóttir á tímanum 17:55,77 og er hún því búin að vinna tvo Íslandsmeistaratitla um helgina.
Það var hörkuspennandi keppni í 200m skriðsundi karla þar sem Ýmir Chatney Sölvason sigraði á tímanum 1:54.30, Veigar Hrafn Sigþórsson kom rétt á eftir honum í mark á tímanum 1:55,11.
Í 200m baksundi kvenna sigraði Ylfa Lind Kristmannsdóttir á tímanum 2:21,38 og í 50m bringusundi kvenna sigraði Birgitta Ingólfsdóttir á tímanum 32,27.
Í 200m bringusundi karla sigraði Einar Margeir Ágústsson á tímanum 2:18,52 og í 100m skriðsundi kvenna sigraði Snæfríður Sól Jórunardóttir á tímanum 55,53.
Guðmundur Leó Rafnsson tryggði sér sinn fjórða Íslandsmeistaratitill þegar hann sigraði í 100m baksundi á tímanum 56,82.
Eva Margrét Falsdóttir tryggði sér sinn fjórða Íslandsmeistaratitil þegar hún sigraði 200m fjórsund á tímanum 2:20,95.
Í 800m skriðsundi karla sigraði Magnús Víðir Jónsson á tímanum 8:42,91 og í 4x100m fjórsundi kvenna sigraði sveit SH á tímanum 4:20,89.
Í lok Íslandsmeistaramótsins eru afhendir bikarar fyrir bestu afrek á ÍM50 og bestu afrek á milli Íslandsmeistaramóta.
Pétursbikarinn:
Pétursbikarinn er gefinn í minningu Péturs Kristjánssonar sundkappa úr Sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins er fjölskylda Péturs.
Pétursbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega í karlaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum Íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum SSÍ, til loka næsta Íslandsmeistarmóts í 50 metra laug
Péturs bikarinn árið 2025 fær Anton Sveinn McKee, Sundfélagi Hafnarfjarðar fyrir 200m bringusund á Evrópumeistaramótinu í Belgrade, 19.06.2024, sem gefur 896 stig
Kolbrúnarbikarinn:
Kolbrúnarbikarinn er gefinn í minningu Kolbrúnar Ólafsdóttur sundkonu úr Sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins eru fjölskylda og vinir Kolbrúnar
Kolbrúnarbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega í kvennaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum Íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum SSÍ, til loka næsta Íslandsmeistaramóts í 50 metra laug.
Kolbrúnarbikarinn hlýtur árið 2025 fær Snæfríður Sól Jórunnardóttir, Aalborg Svømmeklub, fyrir 200m skriðsund á Evrópumeistaramótinu í Belgrade, 20.06.2024, sem gefur 878 stig.
Það voru þau Pétur Pétursson og Sirrý, Sigríður Lovísa, kona hans sem afhentu Péturs- og Kolbrúnarbikarinn en Pétur er sonur Péturs og Kolbrúnar.
Ásgeirsbikarinn:
Ásgeirsbikarinn er gefinn í minningu Ásgeirs Ásgeirssonar fyrrverandi forseta Íslands. Gefandi gripsins er fyrrverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.
Ásgeirsbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug sem haldið er á vegum SSÍ.
Það var Forseti Íslands Frú Halla Tómasdóttir sem afhenti Forseta bikarinn, en Ásgeirsbikarinn fyrir besta afrek á ÍM50 2025 fær Snorri Dagur Einarsson, Sundfélagi Hafnarfjarðar, fyrir 100m bringusund á 1:00,67, sem gefur 824 stig
Það var okkur hjá SSÍ og öllum í lauginni afar dýrmætt að fá Forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, Björn Skúlason og Íþróttamálaráðherra Guðmund Inga Kristinsson í heimsókn til okkar í Laugardalslaugina í dag og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna
ÍM50 var síðasta mótið sem sundfólkið okkar gat notað til að tryggja sig inn á alþjóðleg meistaramót sumarsins.
Við hjá SSÍ munum senda ykkur fréttir af því vali á næstu dögum.