Sundsamband Íslands, skammstafað SSÍ, er æðsti aðili innan vébanda Íþrótta- og
Ólympíusambands Íslands, ÍSÍ, og fer með sérgreinamálefni sundíþrótta á Íslandi. SSÍ er
ólympískt samband og er aðili að Alþjóðasundsambandinu, FINA.
SSÍ er samband sundráða, héraðssambanda og íþróttabandalaga. Öll félög innan ÍSÍ sem
iðka og keppa í sundíþróttum samkvæmt skilgreiningu FINA geta átt aðild að SSÍ, enda
eru lög þeirra í samræmi við lög SSÍ og ÍSÍ.
Tilgangur og markmið SSÍ er í meginatriðum:
- Að hafa yfirstjórn allra sérgreinamálefna sundíþrótta á Íslandi.
- Að vinna að stofnun og starfssemi sundráða og efla á allan hátt sundíþróttir Íslandi.
- Að setja og fylgja eftir nauðsynlegum reglum, uppfræða og löggilda dómara, staðsetja og framkvæma mót SSÍ og staðfesta íslensk met.
- Að efla, samræma og skipuleggja málefni og verkefni landsliða og undirbúningshópa landsliða.
- Að vera fulltrúi íslensku sundhreyfingarinnar gagnvart erlendum aðilum og gæta þess að gildandi reglur um sundíþróttir á Íslandi séu í samræmi við alþjóðlegar reglur. SSÍ leitar atbeina ÍSÍ gagnvart alþjóðlegum samskiptum eftir því sem það á við.