Beint á efnisyfirlit síðunnar

Fréttalisti

24.06.2016

Setning AMÍ 2016 í dag á Akranesi

AMÍ 2016 var sett í dag á Akranesi. Þátttakendur, þjálfarar og aðstoðarmenn gengu í skrúðgöngu um bæinn frá Grundaskóla. Trommusveit vaskra skagamanna sló taktinn og var þar fremstur í flokki Trausti Gylfason formaður Sundfélags Akraness. Regína Ástvaldsdóttir Bæjarstjóri Akraness hélt ræðu á bakkanum í Jaðarsbakkalaug og bauð alla hjartanlega velkomna til keppni. Að því loknu setti Hörður J. Oddfríðarson formaður SSÍ mótið. Mikil og góð stemmning myndaðist á bakkkanum þar sem félögin sungu sína söngva fullum hálsi. Að setningu lokinni héldu síðan allir í koju. Mótið hefst með upphitun kl 07:30 í fyrramálið og fyrstu greinar verða svo kl 09:00. SSÍ óskar öllum góðs gengis á mótinu og þakkar jafnframt skagamönnum fyrir mikinn og góðan undirbúning að AMÍ 2016.
Nánar ...
15.06.2016

FORSETAKOSNINGAR

Við minnum alla sem komnir eru með kosningarétt og ætla að vera á AMÍ á Akranesi á laugardag að kjósa utankjörfundar áður en farið er á Akranes. Einföld og áhrifarík aðferð til að hafa áhrif og um leið að sinna sundhreyfingunni.
Nánar ...
10.06.2016

2 vikur í AMÍ á Akranesi

Aldursflokkameistaramót Íslands í sundi verður sett á Akranesi eftir 2 vikur. ​ Formaður og mótastjóri SSÍ tóku stöðufund með framkvæmdaraðilium mótsins, Sundfélagi Akraness, í gærkvöldi og
Nánar ...
30.05.2016

Verðlaun í Bergen

Hrafnhildur, Eygló Ósk og Bryndís Rún syntu allar um helgina í Noregi á Bergen festival mótinu. Þær náðu allar að vinna til verðlauna á mótinu. Hrafnhildur vann allar þrjár bringusundsgreinarnar á mótinu en hún synti 100m bringusund á 31.20 sekúndur, 100m bringusund á 1.07.74 og 200m bringusund á 2.26.37. Eygló ósk Gústafsdóttir vann silfurverðlaun í öllum þremur baksundsgreinum, hún synti 50m baksund nálægt íslandsmeti sínu á 28.75 íslandsmetið er 28.61, 100m baksund á 1.02.13 og 200m baksund á 2.13.41. Bryndís Rún Hansen fékk silfur í 50 metra flugsundi, hún synti á tímanum 27.80.
Nánar ...
29.05.2016

Að loknu Evrópumóti garpa 2016

Þegar komið er inn í búningsklefa á svona risamóti mætri manni þungur ilmur sem er sambland af gufu, lykt af blautum mannslíkama, seiðandi ilmi af hárgeli syncrosundfólksins, beiskri lykt af kælikremi og krefjandi þef af hitakremi. Eins og gefur að skilja kemst maður í ákveðið ástand í hvert sinn sem maður á leið í gegnum klefana og þar að auki er hávaðinn yfir öllum mörkum, en samt svo viðeigandi og þægilegur – eitthvað sem á svo vel við, fólk að tala, fagna, gráta eða hlægja allt í bland. Í lauginni er troðið, samt fer fjöldinn oní aldrei yfir leyfileg mörk í upphitun, sjálfboðaliðarnir eru allsstaðar, vinalegir og hjálplegir og leggja sig fram um að öllum líði sem best.
Nánar ...
29.05.2016

Karen kom sá og setti garpamet

Karen Malmquist úr Óðni á Akureyri synti í dag 100 metra baksund á tímanum 1:54,30. Þessi tími er garpamet í hennar aldursflokki, 55-59, því samkvæmt metaskrá SSÍ hefur ekkert garpamet í þessum aldursflokki verið skráð í þessari grein í 50 metra laug. Flott hjá Karen sem endar hér þátttöku Íslendinga í garpakeppninni í London.
Nánar ...
29.05.2016

Hildur Karen kom sjálfri sér á óvart

"Þetta var ekkert mál, afhverju fór ég ekki hundrað?" sagði Hildur Karen Aðalsteinsdóttir úr ÍA þegar hún lauk 50 metra skriðsundi á nýju garpameti í aldursflokknum 45-49 ára. Nýja metið hennar er 34,30 sekúndur en gamla metið átti Kristín Guðmundsdóttir 36,22 sekúndur. Hildur Karen kom sjálfri sér örlítið á óvart með árangrinum, hafði gert sér vonir um bætingu á eigin tíma sem kom svo sannarlega fram. Þá á aðeins einn Íslendingur eftir að synda á mótinu, en það er Karen Malmquist sem syndir 100 metra baksund síðar í dag. Á myndunum má sjá Hildi Karen fyrir og eftir 50 metra skriðsundið.
Nánar ...
29.05.2016

Mumma Lóa bætti um betur í 50 skriði

Mumma Lóa úr UMSB bætti um betur í næsta riðli á eftir Rögnu og stórbætti garpametið í þeirra aldursflokki, 65-69 ára. Mumma Lóa synti á tímanum 44,24 sekúndur, en metið sem Ragna setti örfáum mínútum áður var 54,77 sekúndur. Frábært sund hjá Mummu Lóu og frábært hvernig þær Ragna vinna saman hér á mótinu. Nú bíðum við eftir að Hildur Karen úr ÍA, dóttir Mummu Lóu, syndi 50 metra skriðsund og svo mun Karen Malmquist úr Óðni synda 100 metra baksund hér síðar í dag. Þórunn Kristín sem er dóttir Rögnu, Rémi, Kári og Finni hafa lokið keppni á EM garpa í London.
Nánar ...
29.05.2016

Ragna setti garpamet í 50 skriði

Enn halda garpametin áfram að falla hér í London. Ragna María Ragnarsdóttir úr Ægi var rétt í þessu að bæta eigið met um rúma sekúndu í 50 metra skriðsundi í aldursflokknum 65-69 ára. Nýja metið er 54,77 sekúndur en það gamla frá 2013 var 55,83. Flott hjá Rögnu sem er hér á mynd strax eftir sundið ánægð með sig.
Nánar ...
28.05.2016

Þórunn Kristín á nýju garpameti

Þórunn Kristín Guðmundsdóttir úr Ægi gaf sjálfri sér góða afmælisgjöf í dag þegar hún synti 400 metra skriðsund á 6:10,59 hér á EM garpa. Þetta er nýtt garpamet í hennar aldursflokki sem er 45-49 ára og mikil bæting á gamla metinu sem var samkvæmt metaskrá SSÍ 6:40,29 og Þórdís Pálsdóttir átti. Þórunn Kristín synti jafnt sund og ákveðið allan tímann, en hún varð 47 ára í dag. Til hamingju með daginn Þórunn Kristín.
Nánar ...
28.05.2016

Karen komin til London

Karen Malmquist er mætt til London og syndir á morgun hér á EM garpa. Hún er áttundi Íslendingurinn sem tekur þátt í mótinu að þessu sinni.
Nánar ...
28.05.2016

Mumma Lóa setti nýtt garpamet í 100 skriði

Það er skammt stórra högga á milli. Guðmunda Ólöf Jónasdóttir úr UMSB sem er betur þekkt sem Mumma Lóa, gerði sér lítið fyrir og sló garpametið sem Ragna hafði sett í riðlinum á undan. Metið sem Ragna átti var 2:00,60 en Mumma Lóa synti greinina á 1:35,90 í aldursflokknum 65-69 ára. Frábær árangur og gaman að fylgjast með Íslendingunum hér á Evrópumóti garpa í London.
Nánar ...

 

 


Fréttasafn eftir mánuðum